Stjernesymbol i menu


Greinar eftir Martinus
 

Hér getur þú lesið greinar eftir Martinus 

1. Ljós í myrkri
2. Baráttan gegn illum örlögum

Baráttan gegn illum örlögum

- Martinus


Allar lifandi verur eiga sér örlög. Þessi örlög geta aðeins birst í tveim myndum: Annaðhvort sem hamingju- eða óhamingju-tilfinning. Langflestum mönnum er svo háttað að þeir eru ekki sérlega öruggir gagnvart örlögum sínum og eyða því geysilegri orku í það að berjast gegn þessu öryggisleysi. Athafnir eða dagleg breytni flestra manna er eingöngu við það miðuð að skapa sjálfum sér gæfurík örlög eða hamingjusamt líf. Í þessum tilgangi setja foreldrar börn sín til mennta í skólum og námsstofnunum, láta þau læra handverk eða iðn. Og í þessum tilgangi eru flestir á þönum eftir því að græða peninga, eftir auðæfum. Hin ríkjandi skoðun er sem sé einmitt sú að sé maðurinn ríkur, eigi hann peninga, þá sé honum óhætt fyrir óhamingjunni. Aðrir reyna að tryggja sig gegn illum örlögum með sambandi við það, sem vér köllum trúarbrögð. Við sjáum hvernig þessir menn binda sig við helgisiði, sakramenti o.s.frv. og vilja á þann hátt reyna að mynda sér vígi gegn þeim þjáningum, þeim illu örlögum, sem þeir óttast. 

En hvernig eru þá örlög venjulegs jarðnesks manns? Eru þau ekki full af sorgum og áhyggjum? Er samfélag jarðneskra manna ekki fullt af öllum hugsanlegum þjáningum? Eru ekki alls staðar sjúkdómar, neyð og eymd, styrjaldir, hatur og fjandskapur, hvert sem litið er? Já, erum við ekki einmitt nú vitni að þeim ragnarökum, þeim „dómsdegi“, er menn hafa óttast á öllum tímum sem hámark þjáninga og illra örlaga, bæði fyrir þjóðflokka og einstaklinga? Það er ekki að undra, að mesta vandamál allra hugsandi manna er orðið sú spurning, hvernig vinna megi gegn allri þessari ógæfu og stuðla að því að skapa frið og samræmi í heiminum. 

Við yfirlit mannkynssögunnar verður ljóst að allt frá því að einstaklingarnir lifðu sem dýr í skóginum og til dagsins í dag, þegar þeir koma fram sem menn, er ráða yfir náttúruöflunum með tæknilegri getu sinni og afburða þekkingu á hinu grófa efni, hafa þeir notað ofbeldi og valdbeitingu, tillitsleysi og frumstæða sérhyggju til þess að komast áfram sjálfir og bjarga með því lífi og fjöri eða hinni svokölluðu hamingju. Styrjaldaráróður og heróp hafa allar aldir látlaust æst upp stríð, kúgun og limlestingar, já, gjöreyðingu þeirra, er stóðu í vegi fyrir því, sem maðurinn girntist og fyrir hamingju hans. Svo mjög varð líf hins jarðneska manns mengað stríðshyggju, að hún varð blátt áfram trúarbrögð, þrátt fyrir það, þótt menn væru komnir á það þróunarstig, að skíra börn sín „til nafns föðurins, sonarins og hins heilaga anda“, til þess að gjöra þau að lærisveinum hans, er sagði: „Slíðra þú sverð þitt; því að allir þeir, sem grípa til sverðs, munu farast fyrir sverði“. Já, varð það ekki svo í raun og veru að einmitt þær þjóðir og kynflokkar sem vígðir voru friði og bróðurkærleika, urðu mestir sérfræðingar í drápstækni? Hvaða ríki heimsins eru betur búin til víga og ráða yfir meiri gjöreyðingarmætti en einmitt hin kristnu? 

En sökum þessa ástands hafa þau orðið alveg einstætt fyrirbrigði. Kirkjumál þeirra eru háþróuð, skólar virðulegir og prestastétt sem frá hundruðum þúsunda prédikunarstóla hrópar út yfir milljónasöfnuði að þeir skuli elska náungann eins og sjálfan sig, elska þann sem hatar þá og ofsækir, bjóða fram hægri kinnina, ef slegið er á þá vinstri - o.s.frv. jafnframt því, sem þau hafa voldugar kennslustofnanir eða hermannaskóla, þar sem unglingunum er kennt að verða sérfræðingar í alfullkomnustu morðtækni. Hverjir hafa stærri landheri, flota og loftheri en hin svokölluðu „kristnu ríki“? Og getur nokkur neitað því að ungmenni þessara ríkja, sem fyrst eru búnir undir það með skírn, fermingu og altarisgöngu að gerast lærisveinar kristindómsins, eru síðar neydd til þess af dómstólunum með lögboðinni herskyldu að læra til þeirra starfa sem á öllum sviðum eru gagnger andstaða kristindómsins? Nei, þetta vita allir, og langflestir halda að svona hljóti þetta að vera. 

En heimur sem byggir tilveru sína á svo sérstæðum rökum, sem þetta ástand sýnir, mun óhjákvæmilega hljóta þau örlög sem við erum vitni að í nútímalífi. Og var það ekki einmitt það sem endurlausnari heimsins boðaði lærisveinum sínum þegar hann grét yfir eyðingu Jerúsalemsborgar, af því að hún þekkti ekki sinn vitjunartíma. Og var það ekki sú hin sama innri þekking sem gaf honum sýn komandi „dómsdags“ yfir mannkyni jarðar? Honum var það sjálfsagt mál að „himnaríki“ gæti á engan hátt orðið ríki hið ytra, fyrr en það fullkomnaðist hið innra í sérhverjum jarðneskum manni. „Himnaríki“ getur aðeins orðið ríki hið ytra, þegar sérhver borgari þessa ríkis ber í hjarta sér bróðurkærleik og ósérplægni. Þess vegna sá Jesús að „himnaríki“ gæti ekki orðið raunveruleiki í hinum ytra heimi með myndun trúarbragða og safnaða, skírnar eða helgisiða einna saman, heldur yrði það að krýnast og staðfestast með „endurkomu hans í skýjunum með mikilli dýrð“, það er að segja: Með fæðingu hugarfars hans í viljastarfi og hugsunarhætti sérhvers einstaklings. Og þar sem þessi fæðing kristinhugarfarsins í hugarheimi hvers einstaklings er hið eina sem skapar „himnaríki“, það er að segja æðstu lífshamingju sem til er, þá er þessi „endurkoma Krists“ í eigin hugarheimi hins jarðneskja manns eina óyggjandi vörnin gegn óhamingju, þjáningum og ósamræmi lífsins. Sérhver jarðneskur maður verður því, hvort sem hann er Búddhatrúarmaður, Múhameðstrúar eða kristinn, að vinna að undirbúningi þessarar „endurkomu Krists“ í eigin sál eða hugarheimi. Með því leggur hann ekki aðeins grundvöllinn að eigin lífshamingju og tryggir sér björt örlög, heldur verður hann og einn þeirra borgara sem verða að mynda hvert það mannfélag þar sem himnaríki á að verða raunhæf staðreynd. 

Hvernig undirbúum við þá þessa „endurkomu Krists“ hið innra með okkur, í eigin sál eða hugarheimi? Fyrst og fremst með því að tileinka okkur þekkingu á þeim lífslögmálum sem örlög hvíla á þannig að við getum með skynsemi okkar eða vakandi, skýrri hugsun og rökfastri dómgreind skilið orsökina til breytni og hugarfars náunga okkar og að okkur megi þannig verða ljóst hversu heimskuleg er sérhver tegund haturs, hefndar eða ofsóknar gegn þessum náunga. Öll ill örlög eiga rót sína og orsök í vanþekkingu. Fáviskan elur af sér rangar hugsanir. Og rangar hugsanir skapa rangt viljastarf. Og þar sem rangt viljastarf myndar óhjákvæmilega gagnverkanir, sem hafa í för með sér óhamingju eða þjáningu, er ómögulegt að skapa á þessum grundvelli það samband milli sín og umhverfisins er leiðir af sér samræmi og hamingju. Og þar sem ekki er friður, samræmi eða hamingja milli mannsins sjálfs og umhverfisins, þar er stríð. Og stríð merkir þjáningu og dauða, eða algera andstæðu þess „himnaríkis“ sem menn ætluðu að skapa. Og sú andstæða er „helvíti“. 

Þannig eru tvenns konar aðferðir við að lifa lífinu sem sé hin ranga og hin rétta. Þar sem hin ranga myndar „helvíti“, en hin rétta „himnaríki“, er manninum ekki örðugt að komast að raun um það sjálfur, hvort hann er í sambandi við hina réttu eða röngu lífsaðferð eða breytni. Það kemur í ljós í meira og minna ógæfusömum örlögum venjulegra jarðneskra manna að þeir stunda að mestu ranga breytni sökum vanþekkingar sinnar á andlegum lögmálum tilverunnar. Það getur því verið þýðingarmikið fyrir marga að gera sér ljóst að orsakanna til þessa er eingöngu að leita hjá þeim sjálfum. Án þekkingar á hinum dýpri örlagalögmálum munu langflestir menn leita orsakanna að ógæfusömum örlögum sínum út á við eða rekja þau til fyrirbæra sem þeir hafa engin áhrif á. Slíkir menn munu ætið halda að það séu „hinir“ sem eiga sök á ógæfu þeirra, sjálfir þjáist þeir saklausir, séu ofsóttir eða á annan hátt skotspænir haturs og fjandskapar umhverfisins. Þessi afstaða elur á beiskju og sjálfsaumkun og endar ætíð með því að gera fórnarlamb sitt að píslarvotti. Það er þessi afstaða til lífsins sem leiðir menn inn í „vítahring“, því að hún hefur óhjákvæmilega í för með sér endalausa nýja árekstra. Það er því afar áríðandi að manninum veitist alheimslegt uppeldi, þar sem hann lærir að þekkja sjálfan sig og skilja samhengið milli hugsunarháttar og breytni. Án þekkingar á þessu samhengi hneigjast menn allt of auðveldlega að þeim hugsunarhætti sem leiðir til sjálfsdýrkunar, ofurviðkvæmni fyrir sjálfum sér og jafnframt að sálrænu ástandi sem í eðli sínu er tilvalin jarðvegur lífs- og gæfuspillandi hneigða. Sá einn sem „vakir og biður“, það er að segja sá einn sem ætíð hefur stjórn á hugsunum sínum, óskum og þrám, og beinir öllu lífi sínu og breytni að því að fylgja dæmi endurlausnara heimsins, - sá einn getur komist hjá að hugsa ranglega. Og sá maður einn er fær um að mæta sérhverjum myrkum örlögum með þeirri sálarró og yfirburðum, þeirri djúpu auðmýkt, sem dylst að baki hinna ódauðlegu orða endurlausnara heimsins: „Faðir, verði ekki minn, heldur þinn guðdómlegi vilji“.

Frá bókinni  Kosmísk Fræðsluerindi

© Martinus Institut 1981,
May be reproduced stating the copyright and the source of the material.