Stjernesymbol i menu


Greinar eftir Martinus
 

Hér getur þú lesið greinar eftir Martinus 

1. Ljós í myrkri
2. Baráttan gegn illum örlögum

Ljós í myrkri

- Martinus


“Ljósið í myrkrinu” er hin sanna merking jólanna. Við sjáum líka hversu jólin eru hátíðlega haldin með því að tendra milljónir ljósa. Á götunum, í búðargluggunum, á heimilunum, alls staðar eru tendruð ljós, sem leiftra út í vetrarmyrkrið. Augu barnanna geisla engu síður en öll jólaljósin við tilhugsunina um jólatré og jólagjafir, og jafnvel flest fullorðið fólk verður fyrir áhrifum af hugblæ jólanna, þrátt fyrir áhyggjur og annir. Margir hinna fullorðnu eru þó algerlega þeirrar skoðunar að jólin séu hátíð barnanna og sjálfir séu þeir vaxnir upp úr þess háttar barnaskap. Eigi að síður orka öll þessi ljós í myrkrinu á huga þeirra, og innst inni myndu þeir ógjarnan vilja missa af jólahátíðinni sem auk þess framkallar minningar um jólahátíð og jólagleði þeirra eigin bernsku.

Þegar við höldum heilög jól, minnumst við fæðingar barns sem óx upp og varð mönnum ljómandi og leiftrandi fordæmi. Hann varð fyrirmynd þess, hvað það í rauninni er að vera maður. Einkum sýndi hann það við þær aðstæður, þar sem hann mætti hatri mannanna og spotti, háði þeirra og ofsóknum, öllu hinu svonefnda illa, er við skynjum sem hugrænt myrkur, að unnt er að mæta því með ljósi vitundar sinnar í stað þess að svara í sömu mynt með nýju hatri eða nýju háði og spotti. Hann varð geislandi ljós í vetrarmyrkrum hugans. En jólin eru ekki einungis hátíð til minningar um barnið sem fæddist í Betlehem og þau munu ekki, eins og sumir vantrúaðir menn hyggja, hverfa úr sögunni smám saman sökum þess að mennirnir vaxa upp úr þess kyns “barnaskap og hjátrú”. Þvert á móti eru jólin tákn þess, er í sívaxandi mæli mun ryðja sér til rúms í mannlegum sálum, því að þau eru afsprengi þess sköpunarlögmáls sem breytt hefur jörðinni úr glóandi eldhafi í þá fögru, sólbjörtu veröld sem hún er nú, hæfur bústaður viti borinna manna. Lögmál jólanna, “ljós í myrkri”, er í sjálfu sér slíkt að það verður ekki stöðvað. Að reyna að útrýma grundvallarlögmálinu fyrir hugblæ jólanna, það væri hið sama og að reyna að slökkva sólina.

Eftir því sem hin nýju heimsáhrif verða meiru ráðandi í vitund manna, munu þeir vitaskuld líta margt öðrum augum en þeir gerðu, meðan þeir vöru á valdi hinna eldri áhrifa, og á það einnig við um jólin. Jólaboðskapurinn í sinni gömlu mynd mun með tímanum missa kraft sinn, en sú birta og gleði sem frásögnin geymir mun ekki aðeins verða við lýði heldur verða sífellt sterkari. Nýtt tímabil er að þróast með jarðneskum mönnum, þar sem jólin eru ekki aðeins hátíð einu sinni á ári, heldur stöðugt að verki í sálum þeirra. Jólagleðin verður að lífsgleði, jólagjöfin verður maðurinn sjálfur, þ.e.a.s. hann gefur heildinni lífsgleði sína og sköpunarmátt sinn, og friður jólanna verður ríkjandi árið um kring, ekki einungis milli hinna ýmsu þjóða, heldur einnig milli einstakra manna. Það verður í sannleika “friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum”, svo sem boðað er í jólaguðspjallinu. En svo að ljóst verði hver tilgangurinn er með þessum gamla boðskap verða menn að þekkja hann í þeirri mynd sem hann var boðaður vitringunum, og ekki aðeins eins og hann var boðaður á tímum hinna gömlu heimsáhrifa, hinum einföldu. Mennirnir verða að læra að skilja alheimslögmál jólaboðskaparins.

Mál alheimsins ræðir einmitt um “ljósið í myrkrinu”. Í Gamla testamentinu getur að lesa að Guð sagði: “Verði ljós!” Hvaða ljós er það sem hér ræðir um? Það er ekki efnisbundið ljós, því að síðar í sköpunarsögunni er þess getið, að sól og tungl voru sett á himininn. Það er ljós vitundarinnar, ljós andans sem á að geisla í dimmri veröld efnisins. Og það er það sem er að gerast í þróun mannkynsins hér á jörðu. Skapandi hugsun mannsins og mannúðarhæfileiki eða hæfileikinn til bróðurkærleika er ljósið, sem skín í myrkrinu, og myrkrið er það frumstæða vanþekkingarástand, sem tilheyrir dýraríkinu, en mennirnir eiga að þróast frá með því að læra að “greina mismun góðs og ills”, eins og höggormurinn sagði við Evu. Þá eiga þeir að verða “eins og guð”, sem sé “maðurinn í Guðs mynd”. En mönnunum hefur ekki ennþá lærst að neinu ráði að greina mismun góðs og ills, því að öðrum kosti myndu þeir láta miklu meira gott af sér leiða en þeir gera. Þeir eru sem sé ekki ennþá orðnir “menn í Guðs mynd”, þeir eru stöðugt í sköpun, með öðrum orðum að þróast. Bjart ljós vitundarinnar skín ennþá aðeins líkt og lítið tólgarkerti í myrkrinu, eins og svolítið jólaljós, en það á að verða að leiftrandi jólastjörnu, er sendir vermandi geisla lífsgleðinnar, vitsmunanna og bróðurkærleikans út í myrkrið, öllum lifandi verum til gagns og gleði.

Margir menn hyggja að slíkt ástand geti aldrei orðið veruleiki. “Þetta er aðeins óskadraumur”, segja þeir, og svo bæta þeir við: “Stríð hefur alltaf verið, og stríð mun ætið verða”. En ef þessir menn búa á okkar breiddargráðum, og svo er um marga er þannig komast að orði, þá segja þeir þó ekki: “Vetur hefur alltaf verið, og vetur mun ætíð verða”. Hvers vegna segja þeir það ekki? Vegna þess að mál alheimsins hefur kennt þeim annað, sem sé að eftir vetur kemur vor, og því næst sumar og haust. Þeir segja heldur ekki: “Nótt hefur alltaf verið, og nótt mun ætíð verða”, því þeir vita að morgun kemur, hádegi og kvöld. Að vísu eru nokkrir þeir staðir á hnettinum, þar sem mismunar dægra og árstíða gætir ekki svo mjög sem hér á vorum slóðum. Þar er næstum eilíft sumar eða eilífur vetur, og þar er náttúrunni ekki auðvelt að gefa jólaboðskapinn til kynna. Hann verður ekki boðaður þar sem er eintómt myrkur eða þar sem aðeins er birta. Nauðsyn hefur verið á dimmu svæði, þar sem ljósið gæti notið sín í öllum atriðum. Þess vegna eru til þessi belti á jarðarhnettinum, þar sem árstíðirnar eru mjög andstæðar, og í þessum beltum þróast mjög eðlilega skarpastar gáfur á jörðinni. Þar eru sem sé best skilyrði til þess, að læra mál alheimsins í öllum atriðum, það er að segja fræðast um lögmál lífsins, haga lífi sínu eftir þeim og nota þau í þágu vitsmunalegrar sköpunar.

Öll raunhæf, tæknileg og vísindaleg þróun vorra tíma er runnin frá Vesturlöndum, þar sem menn lifa á einu ári um skipti birtu og myrkurs, hita og kulda, en það hefur víkkað sjóndeildarhring þeirra. Náttúran hefur orkað á skilningarvitin í mörgum tilbrigðum; skapast hafa hugmyndir um tíma og rúm og aðrar víddir, hæfileikar hugsunar og sköpunar hafa þroskast til þess að ná valdi á náttúruöflunum og gera sér jörðina undirgefna.

Þessa sigra hafa mennirnir ekki unnið sofandi. Þeir hafa orðið að sigrast á stórkostlegum örðugleikum til þess að öðlast reynslu og þekkingu. Það er ljós andans, sem byrjað er að móta efnið, ekki aðeins með tilstyrk náttúruaflanna, heldur einnig fyrir aðgerðir skapandi vitundar hins jarðneska manns. Ljós andans sigrar myrkrið eða fáviskuna. En það er sama lögmálið, sem birtist í efnisheiminum eftir vetrarsólhvörf, þegar birtan og hlýindin sigrast smátt og smátt á myrkrinu og kuldanum og skapa vor og sumar. Eftir það andlega vetrarmyrkur sem þjakar mannkynið nú, mun einnig koma vor, andleg vetrarsólhvörf munu einnig breyta lífinu á jörðinni. Svo sem myrkur hlaut að skapast í náttúrunni til þess að ljósið gæti notið sín og unnt væri að skynja það, þannig hlaut að skapast hugrænt myrkur meðal jarðneskra manna, þar sem ljós andans gæti náð að geisla og leiftra. Við förum um vetrarsólhvörf í stórri alheims “árshringrás”. Jólaboðskapurinn birtir oss að allt þetta myrkur sé nauðsynleg ráðstöfun, mönnum til gangs, sökum þess að einmitt gegnum hið myrka svið birtist oss innsýn í andstæðu þess, ljóssins heima. Það virðist að vísu svo, sem þægilegra hefði verið, að mennirnir lifðu í sífelldri birtu við eilíf hlýindi og þyrftu ekki að hafa áhyggjur af daglegu brauði, heldur gætu notið ávaxta náttúrunnar að vild. En þá myndi maðurinn deyja úr ofbirtu og leiðindum. Ljósið myndi breytast úr lifandi lögmáli í banvænt lögmál. Hæfileikinn til lífsskynjunar myndi úrkynjast sökum skorts á andstæðum eða mismun; þá myndu menn í sannleika “deyja”. En það var nú einmitt það sem höggormurinn sagði við Evu í Paradís að þau myndu ekki gera, heldur munu “augu ykkar uppljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og þekkja mismun góðs og ills”. “Höggormurinn” eða “djöfullinn” er tákn alheimslögmáls, en ekki tákn veru sem sé Guði jöfn og andstæðingur hans. Myrkrið er sá jarðvegur þar sem ljósið nær að skjóta frjóöngum og vaxa, þar sem vitundin getur fæðst. Og frásögnin um fæðingu Kristsbarnsins er ekki aðeins frásaga um það, að Jesús frá Nazaret fæddist í Betlehem fyrir svo og svo löngum tíma, heldur jafnframt tákn þess að “maðurinn í Guðs mynd” hefur þróast frá myrkum eðlishvataheimi dýraríkisins og breytist í veru sem er innvígð í lögmál lífsins og skapar um sig veröld geislandi vitsmuna og kærleika.

Ekkert það myrkur er til að það sé ekki ætlað sem baksvið geislandi ljóss. “Getsemane” sérhverrar lifandi veru er eingöngu sem “myrkrastofa”, þar sem opinbera á eitthvað bjart og guðdómlegt. Vitaskuld er tækni og raunvísindi ekki nóg, þegar skapa skal friðarríki á jörðu. Þau eru árangur þess, að á vissu sviði hefur maðurinn sigrast á myrkrinu með ljósi hugsunarinnar. En tækni og vísindi eru einnig notuð í þjónustu stríðsins og skapa þá enn meira myrkur og þjáningu meðal manna. Við það verður friðarþráin ennþá sterkari, og það er eina leiðin til friðarins. Meðal jarðneskra manna hefur smám saman myndast baksvið haturs, fjandskapar, ofsókna, drápa, limlestinga, pyndinga og margra annarra afleiðinga stórstyrjaldanna, og frá hversdagslegum ófriði milli einstakra manna baksvið rógs, þvaðurs, öfundar, reiði og beiskju o.fl. Á þessu myrka baksviði tendrast stjarna jólanna í sálum mannanna, og stöðugt er það gamli boðskapurinn, sem hirðarnir heyrðu á jólanótt, en í nýrri mynd sem hentar hugsandi mönnum nútímans, er ekki verða sefjaðir til blindrar kreddutrúar. “Söngur englanna” verður “jólaboðskapur alheimsins” og þessi jólaboðskapur er órofin endurtekning þess, í mörgum tilbrigðum, að ljósið tendrast í myrkrinu.

Sólin, mesta uppspretta orkunnar á okkar svæði í alheiminum, sýnir okkur að hún er einungis til þess að senda jólagjafir til alls og allra algerlega skilyrðislaust og óeigingjarnt. Hún gerir ekki greinarmun góðra og illra eða réttlátra og ranglátra, heldur geislar orku sinni út til allra. Hún veitir ljós og kraft og hita, og ef hún gerði það ekki, væri jörð okkar köld og auð. Það er ekki sólarinnar sök, þótt til séu nætur og vetrartími, þegar minna gætir birtu og hlýinda, heldur er það afleiðing afstöðu jarðarinnar og um leið afstöðu okkar til sólarinnar.

Sólin er jólastjarna efnisheimsins á okkar litla umráðasvæði alheimsins. En til er jafnframt andleg jólastjarna, alheimsleg áhrif sem veita inn yfir jarðarhnöttinn lífgandi geislum sínum og bylgjum. Einnig þessi andlega sól varpar ljósi sínu yfir mennina. Hún hefur fyrr birst í öllum trúarbrögðum, í listum og vísindum, og nú skín hún einnig í andlegu vísindunum. Það er ekki allir menn sem hafa þroska til að veita þessum nýju áhrifum viðtöku. Hugur sumra er svo langt inn í myrkraríki nætur og vetrar að ljós þessarar alheims sólar eða jólastjörnu nær ekki ennþá til þeirra. En eins og það er tímabundið, hvenær hin efnislega sól víkur myrkrinu á bug, þannig er það einnig aðeins tímaatriði, hvenær hin efnislega sól víkur myrkrinu á bug, þannig er það einnig aðeins tímaatriði, hvenær geislar hinna nýju heimsáhrifa þrengja sér lengra og lengra inn í hugrænt vetrarmyrkur fleiri og fleiri manna. Margir leitandi menn eru þegar teknir að skynja þetta ljós í vitundinni, ekki sem nýja trú eða átrúnað, heldur þekkingu á eilífum lögum og lögmálum alheimsins. Þar sem þessi þekking nær raunverulega að festa rætur í vitundinni, mun hatur og beiskja og óánægja í hvaða mynd sem er í garð annarra manna hverfa smám saman, en sönn jólagleði taka að vaxa í sálinni, - gleði sem aldrei veðrur burtu tekin. vitum við að engin ský eru svo þétt að þeim verði ekki dreift, svo að geislar ljóssins fái rofið myrkrið og okkur fer að skiljast að jólin á ekki aðeins að halda hátíðleg 24. desember, heldur eiga þau að ná yfir allt árið. Þá erum við þátttakendur í þeim “englaskara”, sem flytur jólaboðskap alheimsins; þá gefum vér oss sjálf, og það er mesta jólagjöfin.

Frá bókinni  Kosmísk Fræðsluerindi

© Martinus Institut 1981,
May be reproduced stating the copyright and the source of the material.