Stjernesymbol i menu


Ný heimsmynd
 

Hér getur þú lesið kynningu á nokkrum af þeim andlegu vísindagreiningum, sem Martinus hefur lýst í sínu umfangsmikla ritverki.

Vitund mannkynsins mótar heimsmynd þess
Í allri mannkynssögunni hefur maðurinn skapað myndir af heiminum. Hann hefur skapað goðsagnir og trúarlegar sögur, sem gáfu skýringar á lífinu og dauðanum og hvernig veröldin leit út. Hver og ein heimsmynd er samt ekki bara mynd af heiminum. Hún gefur líka mynd af því vitundarástandi, sem hefur ríkt í samfélagi þess tíma. Með því að skoða þróun heimsmyndanna í mannkysögunni getum við fylgt þróun vitundarinnar – fylgt vegi sálarinnar í sögunni. Við getum líka séð, hvernig heimsmyndir rísa og falla. Martinus setur þessa vitundarþróun í nýtt og stærra samhengi þegar hann lýsir algjörlega nýrri heimsmynd.

Mannkynið hefur farið í gegnum mismunandi menningarskeið
Martinus veitir okkur óvænt sjónarhorn þegar hann sýnir okkur að þessar ólíku heimsmyndir fylgja stærra skipulagi - sem er lögbundin og rökrétt þróun mannsvitundarinnar.

Mannkynið hefur farið í gegnum ólík menningarskeið hvað varðar goðsagnir og trúarbrögð. Fyrri tíma menningarskeið byggðu á stríðs- og hefndarhug ásamt fjölgyðistrú en á seinni tímum hefur verið meiri áhersla á einn guð sem gefur innblástur til náungakærleika og fyrirgefningar (með mismiklum árangri fram að þessu). Enn síðar í þróunarsögunni hefur hluti fólksins misst traust á hefðbundnum trúarbrögðum og gamaldags hugmyndum þeirra og siðferði. Þetta hefur átt sér stað á sama tíma og vitsmunirnir hafa þróast, og hagnýt reynsla frá umheiminum hefur fengið meira vægi.

Saman hafa náttúruvísindin og veraldleg form af mannúðar- og sálfræðikenningum fengið brautargengi og skapað heimsmynd efnishyggju. Samkvæmt Martinusi er þetta ekki lokastigið í vitundarþróun mannkynsins. Þessi mismunandi vitundarform sem hafa orðið til í mannkynssögunni, benda einfaldlega á mismunandi áfanga á vegi lífsins.

 
Þróunin eða umbreyting hinna lifandi vera miðar áfram, þótt fólki finnist stundum, að það gangi ekki nógu hratt. Nú á tímum erum við í óvenju hraðri þróun, allt gerist hraðar en það gerði fyrir á öldum. Þess vegna hellist líka lífsreynsla yfir mannkynið. Heimsstyrjaldirnar, byltingarnar, atvinnuleysið, sjúkdómar bæði á sál sem líkama, öll þau persónulegu vandræði sem hver og einn glímir við, allt þetta leiðir til þess, að þrá fólks eftir friði verður sterkari og sterkari.
(Den mentale kursændring (Huglæg stefnubreyting), Kosmos nr.21, 1972)

Efnishyggjan gefur engin svör um tilgang lífsins
Efnishyggjan hefur tvenns konar þýðingu. Sú fyrri er þekkingarlegs eðlis: maður reiknar með því að veruleikinn sé eingöngu efnislegur. Hin er verðmætaleg: maðurinn setur efnisleg gæði ofar öllu öðru. Með tímanum mun þetta áhugaleysi á því andlega leiða til þess, að fólk mun í auknum mæli missa sjónar á tilgangi lífsins. Fólk einblínir á það ”dauða” – og mun þannig með tímanum missa tilfinningu fyrir því sem er lifandi. Efnishyggjuheimsmyndin getur ekki gefið manninum neinar siðferðislegar leiðbeiningar eða skýringar á því vers vegna þjáningar eiga sér stað í heiminum, eða hver tilgangurinn er með tilveru okkar.

Reynslan gefur þekkingu og skilning
Fyrir hvern og einn virðist  fljótt á litið eins og menningaleg og vitundarleg fortíð mannkynsins hafi einungis átt við um  einhverja aðra en okkur sjálf – fólk fortíðarinnar. Með greiningum Martinusar opnast nú fyrir einstaklinginn nýr skilningur eða nýtt sjónarhorn á samhengi hans við umheiminn. Hver og einn hefur þróað vitund sína líf eftir líf. Við erum öll þátttakendur bæði í fortíðinni og framtíðinni. Samkvæmt Martinusi er lífið eitt langt þróunar- og lærdómsverkefni sem er sér sniðið fyrir hvern og einn. Með því að lifa og skynja grunnandstæður lífsins – gleði og þjáningu – þróar maðurinn vitund sína. Sökum vanþekkingar sinnar kemst  hann ekki hjá því að gera mistök og uppsker þess vegna  þjáningarfullar afleiðingar og dýrmæta reynslu.

 

Fjársjóður viskunnar, þróun innsæis

Líf eftir líf setur lífsreynslan djúp spor í sál hvers og eins. Þessi spor verða þungamiðjan í lífinu og koma til með að auðga einstaklingsvitund hvers og eins. Þau verða sá fjársjóður viskunnar, sem leggur síðan grunninn að notkun innsæis í framtíðinni.  Við sjáum fyrstu merki þess, að innsæið er byrjað að virka, hjá einstaka listamönnum og vísindamönnum.

Á mikið háþróaðra stigi getur kærleiksrík manneskja með háþróað siðgæði sjálf valið að nota innsæi sitt til að rannsaka lögmál lífsins, upplifa sína eigin hlutdeild í eilífðinni og tengjast guðdóminum. Það er á þennan hátt sem Martinus hefur mótað ævistarfs sitt og þar með gert nýja og víðtæka heimsmynd aðgengilega fyrir hinn jarðneska mann. Í þessari heimsmynd birtist hið trúarlega í nýju og vitsmunalegu ljósi og virkar þá eins og einhvers konar útskýring eða varnarræða fyrir allar lifandi verur.

Umbreyting á hlutverkum kynjanna, kynferði og ást

Martinus setur grundvallarlögmál lífsins og afleiðingar þeirra í beint samhengi við þá flóknu og sundruðu upplifun af lífinu sem nútímamaðurinn glímir við. Það kemur Martinusi ekki á óvart, að margt fólk upplifir sjálft sig standa sem ókunnugir gestir frammi fyrir lífinu. Sú reynsla sem manneskjan öðlast skapar sterkar minningar í vitundinni. Vaxandi fjöldi fólks mun finnast sem hugsunarháttur þess passi ekki lengur við hefðbundinn lífsstíl og hefðbundin kynjahlutverk með áberandi aðgreiningu milli karla og kvenna. Bæði kvenlægir og karllægir eiginleikar eru í stöðugri þróun hjá nútímamanninum. Hið kvenlega byrjar að skína í gegn hjá karlmönnum og hið karlmannlega að skína í gegn hjá konum. Þetta veldur umbreytingu á fjölskylduformi og þjóðfélagsskipulagi – og í ástarlífi og kynlífi. Þetta sýnir, að það eru líka mismunandi þróunarstig á ástar og kynferðissviðinu.

 

Hinn lifandi alheimur. Þróun í átt að mannúðlegu heimsríki

Það sjónarhorn á lífið sem Martinus öðlaðist var hluti af vígslu hans inn í hina guðdómlegu vitund. Samkvæmt Martinusi er Guðdómurinn hið sama og alheimurinn í heild sinni og hann rúmar bæði kvenlæga og karllæga eiginleika. Martinus er sammála stjörnufræðingum um að efnislegi alheimurinn er gígantígskur, og spannar allt frá frumeindum til stjörnuþoka. En hann sér alheiminn sem lifandi heild og á þann hátt skapar hann heimsmynd sem byggist á andlegum vísindum. Hann lítur á vitundina sem það afl, sem stjórnar þróun lífsins – líka hinni líffræðilegu þróun. Fræ hinna mismunandi lífsforma byrja á andlegu stigi, og hægt og rólega finna þau sitt birtingarform, skapa líf sitt í efninu og þróast í það sem er mögulegt í efnisheiminum. Í dýraríkinu á þessi þróun sér stað í formi lífsbaráttu. Það er almennt álitið – eins og náttúruvísindin segja - að maðurinn sem lifandi vera hafi þróast frá dýrum. Martinus heldur því fram, að þessi þróun haldi áfram og að við séum alls ekki ennþá fullþróuð sem manneskjur. Okkur vantar ennþá töluverða reynslu, sem meðal annars mun þróa samúð okkar, umburðarlyndi og félagslegan- og siðferðilegan skilning. Með tímanum mun þessi þróun leiða af sér réttlátt og kærleiksríkt heimsríki – og nýtt og meðvitaðra samband við Guðdóminn.